JEL - Hausmynd

JEL

Bloggfærslur mánaðarins, desember 2006

Á gömlum degi ...

Ég var búin að henda hér inn gríðarmiklu jólabloggi um daginn, en það komst ekki alla leið því ég með klaufagangi missti það frá mér.  Náttúrulega rugla að skrifa beint í blog kassann, rak mig í enter eða eitthvað og textinn gufaði upp… Óþolandi.
Allavega í stuttu máli þá snérist færslan mest um það að við áttum hér meira gleðilegt gubb en gleðileg jól.  JR fékk einhvern skít í sig á aðfangadagsmorgun og vökvaði fótlegg Hilmars afa síns allhressilega í borðstofunni um morguninn.  Þá kom möndlugrauturinn í hádeginu með tilheyrandi listarleysi JR, en amma
Unnur náði möndlunni og fékk að launum súkkulaði-eitthvað og það sem er meira um vert þá gætti JR jafnræðisreglu stjórnarskrárinnar og gusaði yfir ömmu sína líka.  2-0.  Núna þurfti JEL bara að ajaxa stólana, veggina, innréttinguna og gólfið í eldhúsinu.  Þá var hafist handa við humarsúpuna og JR var nú orðin miklu hressari og sá sjónvarpsefni á meðan við elhúsuðum.  Einhvern tíma í milli tíðinni kom Eggert með sitt staðlaða og vænta gubb líka.  Ilmurinn í eldhúsinu fór skánandi eftir því sem vænta mátti af starfi manna þar, en skyndilega varð hann allt annað en lokkandi þar sem frumburðurinn hafði nú skreytt sófasettið í anda dagsins, 3-0.  Hún sofnaði nú fljótlega eftir síðustu hreingerningu dagsins og vaknaði aftur í humar/ajax súpunni en tók þó vatn og brauð fram yfir hana, enda kristilega uppalinn.  Allir voru þó við hestaheilsu í aðal- og eftirrétti.  Og þegar kom að því að skoða í pakkana var ekki að sjá að neinn hefði verið slappur fyrr um daginn, enda jólin loksins orðin gleðileg en ekki ógleði leg…

Framundan er að finna sér eitthvað að éta og glápa svo á skaupið.
Gleðilegt ár !


Kettir í myndasyrpu

Bara benda á nokkuð traust myndband hér á síðunni ...

Dulúð jólanna aflétt

Þegar ég var lítill patti hvíldi mikil leynd yfir ýmsu varðandi jólahaldið, t.d. pukur með möndluna og pakkana.  Nú horfir þetta öðruvísi við þegar maður er farinn að vasast í þessu sjálfur.  Ég hélt að dulúðin væri minni, og maður gæti þannig talað um gjafirnar og keypt eitthvað sem fellur í kramið.  Þá er einnig gott að hafa tímann fyrir sér, en ég er t.d. búin að verða mér út um gjafir handa öllum sem á að gleðja í ár.  En samt ekki, því ég er búin að kaupa eina gjöfina tvisvar og á hana samt eftir!  Gamla dulúðin er ekki eins skemmtileg og áður var, en það skal tekið fram að búið er að taka báðar þessar "gjafir" í notkun á heimili okkar.  Önnur er mikið þarfaþing og hin er mikil heimilisprýði, en hvorug kvalifiserar sem jólagjöf ...
Þannig að þá er lítið annað eftir en að fara kaupa eitthvað fallegt, pakka því inn og fela það til jóla.

JEL


Miklir reiknimeistarar, moggamenn

Viðskiptafréttin inniheldur m.a. ...
...150 þúsund júan eða 1,3 milljónir króna fyrir að ... [ Gengi ca. 8,67 ] &
...aðra leiðina er um 910 júan eða 63 þúsund krónur... [ Gengi ca. 69,23 ]
Bara smá feill !


mbl.is Lággjaldaflugfélag sektað fyrir útsölu á flugmiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

B-menn með nýtt logo í afmælinu

b-mennÞetta er auðvitað snilldarmynd sem ég fékk "lánaða" frá 365.  En þarna er aðal b-fólkið að leita að kökunni sem var keypt fyrir stórafmæli flokksins.  Hún er auðvitað pínlega lítil fyrir stórafmæli, en í miklu samræmi við fylgi flokksins og hefði varla verið nothæf í meðal skírnarveislu í norðvesturkjördæmi...  Svo er vatn með í boði hússins... Þá er gerð tilraun til að flikka uppá flokkin með nýju logoi, allt er nú reynt í þessum bransa.  Maður hefði haldið að svona lagað væri eitt það síðasta sem gert er til að eig(n)a sér, tja eigum við að segja framhaldslíf ?
En logoið er töff og lýsandi, en þar renna maður og B saman í eitt.


mbl.is Framsóknarflokkurinn 90 ára í dag; fylgið sjaldan minna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heimsókn ÁHSL á F6

Nú eru komnar inn nokkrar nýjar myndir í albúm á vefsvæðinu.  Tilefnið er skemmtilegt, en Ásdís Heiða stórfrænka okkar kom í heimsókn nú yndir kveld.  Þær frænkur eru búnar að hlægja mikið saman og leiðist greinilega takmarkað, einu leiðindin komu í kjölfar náttfatanna og voru af allt öðrum toga.  En allavega þá mun gleðin hefjast á ný í fyrramálið, þar sem Ásdís fékk leyfi til að gista hjá frænku sinni...

JEL


(Tann)álfar og tröll

Eggert Aron og Jóhanna Rakel Nú er maður á vaktinni fyrir Jóhönnu, enda von á Stekkjastaur í nótt.  Brjáluð eftirvænting í gangi, enda hitti hún Gluggagægji um helgina í Heiðmörkinni með ömmu Unni.  Þar voru líka tröllastrákar (annar hét Grámann Rauðsokkuson, kallaður sokkasleikir af JR, og hinn var ónefndur.), sem engin vissi almennilega hvað voru að gera þarna.  Líklega bara að sjá til þess að jólasveininn drullaði sér heim aftur, enda var hann að stelast að heimann.  Allavega Jóhanna fékk nammigott og varð hrædd við tröllastrákana, allir glaðir samt.  Engir voru álfarnir í þessu boði, en á sama tíma var EA að leggja sín fyrstu drög að tannálfabúgarði heima í héraði.  Snáðinn er búin að rækta með sér tönn sem er orðin áþreifanleg í neðri góm.  Ekki veitir honum af að hafa þennan millimeter í öllu hátíðartottinu sem framundan er ...

Tæknileg mistök

  Veröldin er furðulegt fyrirbæri.  Margt sem fram fer í henni má flokka sem tæknileg mistök.  Annars finnst nú flestum nóg um notkun á þessu orðapari; tæknileg mistök.  Þar sem þau hafa verið notuð um allt og ekkert, síðan ummælin urðu heimsfræg á Íslandi.  Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að notkunin sé hvergi nærri næg og því fer fjarri að hún sé á undanhaldi.  Enda er hér komið fram eitt mesta orðatiltæki hina síðari áratugi.  Málshættir og orðatiltæki gefa tungumálinu okkar gildi, og þegar fram kemur slík snilld er tilefni til endurútgáfu bóka um slík efni.  Þetta gæti t.d. litið svona út:
  Tæknileg mistök  Geysileg afglöp í starfi, þar sem siðleysi, siðblinda og ýmsir aðrir neikvæðir eiginleikar stjórnmálamanna birtast í síbrotum þeirra á tímabili sem þeir lenda í.  Orðatiltækið er svo upplagt að nota þegar sami aðil ætlar að trana sér fram á nýjan leik, eftir að hafa tekið út sína refsingu.
  Pæliði í því að maðurinn heldur að hann sé búin að taka út sína refsingu, bara af því að það stendur hvergi í einhverjum samþykktum um að svona gaurar eigi ekki afturkvæmt í pólítík.  Allir neikvæðu eiginleikarnir er allsráðandi ennþá og hamla manninum greinilega sýn, enda er framferði hans að skemma fyrir hans gamla flokki.  Eiginhagsmunirnir eru í hávegum hafðir, alveg sama þó það muni skemma fyrir öðrum.  Ósvífni og ekkert  annað.  Það auðvitað verður að stoppa þetta rugl, áður en það er orðið of seint.  Þá er löngu orðið tímabært að setja reglur sem lúta að hæfniskröfum alþingismanna.  T.d. væri þetta ágætis byrjun:
1.  Frambjóðandi má ekki hafa hlotið dóm sem hefur komið honum í "betrunarvist."
2.  Frambjóðandi þarf að hafa háskólapróf frá viðurkenndum háskóla.
3.  Frambjóðandi verður að hafa gott vald á ensku.

Hvað væru margir eftir ef þessar reglur yrðu keyrðar í gegn núna?


Ein litlar, tvær litlar, þrjár litlar bólur ...

... fjórar litlar, fimm litlar, sex litlar bólur
sjö litlar, átta litlar, níu litlar, tíu litlar bólur.
Og það sinnum 2 og þá erum við kominn með bólufjöldan í smettinu á syni mínum.  Svo er hann með ýmsar stíflur (erum hvorki að tala um ritstíflur né kárahnjúka), þær eru þó ekki í frárennslis-göngunum heldur meira í kringum aðveitukerfið.  Þetta býður upp á ýmis tilhlýðileg hljóð eða jafnvel hljóðmerki sem brjóta sér leið í gegnum þrútið aðveitukerfið í skjóli nætur.  Þetta er auðvitað mjög upplífgandi og gefur lífinu eitthvað auka gildi (sem ég reyndar er ekki alveg búin að fatta).  
  En það sem ég vildi sagt hafa er að Eggert Aron er sem sagt búin að fá arf í fyrsta skipti.  Hann erfði auðvitað hlaupabóluna af Jóhönnu Rakel.  JR er byrjuð á nýju deildinni á leikskólanum, og gekk það ótrúlega vel eins og aðrar breytingar sem hún þarf að ganga í gegnum.  Fleira var það ekki.

JEL


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband